17.5.2007 | 22:45
Svarfdælskar vísur I
Hér á eftir koma svarfdælskar lausavísur, teknar úr bókunum Svarfdælingar um mann og ættfræði svarfdælinga sem Stefán Aðalsteinsson tók saman og voru gefnar út árin 1976 og 1978.
Að þéttbýlinu í Svarfaðardal víkur trúlega gömul og alþekkt vísa, þótt engin viti aldur eða tildrög hennar:
Eitt sinn hittust hrafn og valur.
Hvor varð öðrum feginn.
Þá var setinn Svarfaðardalur.
Sinn fló hvorumegin.
Jón á Karlsá kvað um Snorra Rögnvaldsson frá Hálsi:
Situr á Hálsi siðugur
í sveitabyrjun vorri
léttsinna og liðugur
laufaviður Snorri.
Eiríkur Pálsson kvað um Sigfús Sigfússon á Hálsi:
Súfgis nefna má ég mann
mætu vafinn gengi,
á Barkastöðum hefur hann
hjúum ráðið lengi.
Björn Gíslason á Bakka kveður um Benedikt Sumarliðason á Hamri í formannavísum 1788:
Benedikt á dælu
dýri situr hátt
kaldrar norðankælu
krympast ey við slátt
leggur furðu langa
línu í djúpan sjó
fisk því margan fangar
fermir árakló
flyðra, ýsa, háfur, hlýr,
honum er vís og þorskur nýr,
keila, lýsa, karfinn rýr,
kolar og langan mjó.
Jón Hallgrímsson kveður um Gísla Jónsson á Hamri í formannavísum sínum frá 1845:
Hann Gísli á Hamri / hefi ég að því gáð,
þó glýjan glamri / svo gæti afla náð,
rastar hesti rennir / reyðar heyði á,
næsta fast því nennir / að neyða skeið um sjá.
Yst við tengur afla fær,
upp þá gengur ránar mær,
listadrengur landi nær,
Lágarbúðum hjá.
Jón á Karlsá yrkir um tengdason sin Sigurð Jónsson á Hrísum:
Á Hrísum byggir hringaver,
hreppstjóri nafnfrægur,
Sigurður heitir seimagrér,
síglaður og þægur.
Einar Sæmundsson stúdent yrkir um Þorlák Þorláksson á Skáldalæk í formannabrag um 1735:
Þorlákur á humrahöll
hýðir þó sé báran stríð
þollur skelldi skötuvöll
á skíði Ránar marga tíð.
Athugasemdir
BLOGGVINIR: Vegna góðra viðbragða við birtingu á þýðingu á smásögu eftir Tolkien (Laufblað eftir Nostra) á blogginu mínu hef ég ákveðið að birta frumsamda smásögu eftir sjálfan mig (sic!) á blogginu. Sagan er hér ef þið hafið áhuga:
Ásgeir Rúnar Helgason, 18.5.2007 kl. 22:00
Takk fyrir skemmtilegar vísur.
Ég elska dalinn.
Er í Gröf á hverju sumri ef ég bara mögulega get:
Ásgeir Rúnar Helgason, 19.5.2007 kl. 18:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.