4.5.2007 | 08:17
Til móður minnar
Þessar vísur orti ég til móður minnar á fimmtugsafmæli hennar.
Vanga mínum væra straukst,
vöggu yfir minni.
Andans dyrum upp þú laukst,
okkar styrktir kynni.
Hugur þinn og hjarta vært,
hlýju mér nú færa.
Brosið ljúfa, bllíða, tært,
bezta móðir kæra.
Lífshlaup okkar lykkjót var,
löng var okkar ganga.
Napur vindur nýsti, skar,
naska ferðalanga.
Geislar Sunnu glampa nú,
gangan verður mýkri.
Okkar vonum, ást og trú,
erum núna ríkri.
Lífið eins og ljúfur blær,
lengur ekki plagar.
Framtíð okkar falleg, vær,
fagrir, langir dagar.
Mínar þakkir móðir kær,
margar átt þú inni.
Ég vona að þú skínir skær,
á skjótri lífsleiðinni.
Þetta er nú mezt allt gamalt efni sem komið er hingað inn. Ég hef ekki getað ort mikið sökum anna. En á því skal gera bragabót fljótlega og mun ég reynna eftir beztu getu að setja hingað inn nýjan kveðskap.
Lifið heil.
Gamli
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.