Hof - Hausmynd

Hof

Svarfdælskar vísur I

Hér á eftir koma svarfdælskar lausavísur, teknar úr bókunum Svarfdælingar um mann og ættfræði svarfdælinga sem Stefán Aðalsteinsson tók saman og voru gefnar út árin 1976 og 1978.

Að þéttbýlinu í Svarfaðardal víkur trúlega gömul og alþekkt vísa, þótt engin viti aldur eða tildrög hennar:

Eitt sinn hittust hrafn og valur.

Hvor varð öðrum feginn.

Þá var setinn Svarfaðardalur.

Sinn fló hvorumegin.

Jón á Karlsá kvað um Snorra Rögnvaldsson frá Hálsi:

Situr á Hálsi siðugur

í sveitabyrjun vorri

léttsinna og liðugur

laufaviður Snorri.

Eiríkur Pálsson kvað um Sigfús Sigfússon á Hálsi:

Súfgis nefna má ég mann

mætu vafinn gengi,

á Barkastöðum hefur hann

hjúum ráðið lengi.

Björn Gíslason á Bakka kveður um Benedikt Sumarliðason á Hamri í formannavísum 1788:

Benedikt á dælu

dýri situr hátt

kaldrar norðankælu

krympast ey við slátt

leggur furðu langa

línu í djúpan sjó

fisk því margan fangar

fermir árakló

flyðra, ýsa, háfur, hlýr,

honum er vís og þorskur nýr,

keila, lýsa, karfinn rýr,

kolar og langan mjó.

Jón Hallgrímsson kveður um Gísla Jónsson á Hamri í formannavísum sínum frá 1845:

Hann Gísli á Hamri / hefi ég að því gáð,

þó glýjan glamri / svo gæti afla náð,

rastar hesti rennir / reyðar heyði á,

næsta fast því nennir / að neyða skeið um sjá.

Yst við tengur afla fær,

upp þá gengur ránar mær,

listadrengur landi nær,

Lágarbúðum hjá.

 Jón á Karlsá yrkir um tengdason sin Sigurð Jónsson á Hrísum:

Á Hrísum byggir hringaver,

hreppstjóri nafnfrægur,

Sigurður heitir seimagrér,

síglaður og þægur.

Einar Sæmundsson stúdent yrkir um Þorlák Þorláksson á Skáldalæk í formannabrag um 1735:

Þorlákur á humrahöll

hýðir þó sé báran stríð

þollur skelldi skötuvöll

á skíði Ránar marga tíð.

 

 

 

 


Hesta vísa ?

Ríða fleztu fögru vil,

feyki hratt og mikið.

Geri ekki gripum skil,

þó gripið vær´í spikið.


Norður för

Er á leið norður um Hvítasunnuhelgina.

 

Þrána sefa, þorstan slekk,

þæfist andans grátur.

Er fagran sezt á fjallabekk,

færast tár í hlátur.

Svarfdælskt blóðið seytlar því,

sælu bráðum kynnist.

Eyjafjarðar unun hlý,

ávalt þín ég minnist.


Af veikindum forseta

Letin bugað hefur hann,
Hneig því lúinn niður.
Þyrlu ferðin þreytu vann,
Því er ver og miður.

Fégræðgi

Heilög ritning hefur mist,
hald á prestum sínum.
Blóta Mammon berja krist,
og bergja á góðum vínum.

Nú hafa, að mínu mati, æðstu klerkar hvíta krists farið algjörlega framm úr sjálfum sér með viðskipta vitið sitt. Með því að stroka út "Limbóið" hafa þeir sennilega aukið fylgi kirkjunar svo um munar.

Hvernig er hægt að fylgja boðskap sem getur breyst án fyrirvara?

 Hvernig getur einstaklingur sem hefur fylgt boðum og bönnum í marga áratugi-, í þeirri von að sér væri nú sennilega borgið, að hann hefði nú tryggan aðgang að himnaríki því að hann hafi nú verið skírður og allt hans líf hafi hann gengið veg guðs og lifað eftir boðorðum hans, -fundist hann vera öruggur.

Hvað varð um allar sálirnar sem voru settar á bið, sem búið er verið að biðja fyrir af nánustu ættingjum, var þetta allt til einskis gert? Var þetta bara einhver tálsýn á vegum kirkjunar til að tryggja sér fasta meðlimi í trúnni? Að eiga tryggan og dygran sóknarsjóð?

Af hvejru fella þeir ekki næst út kynvilluna? Þar lyggja sko peningar, hugsið ykkur öll þau sóknargjöld sem koma þar inn.

Lifið heil (trúið á ykkur sjálf)

Gamli


Mánudags ferskeytlan

Ljúfa Norðurlandið mitt,

langar til að dreyma.

Eyjafjörður yndið þitt,

aldrey þér mun gleyma.


Til móður minnar

Þessar vísur orti ég til móður minnar á fimmtugsafmæli hennar.

Vanga mínum væra straukst,
vöggu yfir minni.
Andans dyrum upp þú laukst,
okkar styrktir kynni.

Hugur þinn og hjarta vært,
hlýju mér nú færa.
Brosið ljúfa, bllíða, tært,
bezta móðir kæra.

Lífshlaup okkar lykkjót var,
löng var okkar ganga.
Napur vindur nýsti, skar,
naska ferðalanga.

Geislar Sunnu glampa nú,
gangan verður mýkri.
Okkar vonum, ást og trú,
erum núna ríkri.

Lífið eins og ljúfur blær,
lengur ekki plagar.
Framtíð okkar falleg, vær,
fagrir, langir dagar.

Mínar þakkir móðir kær,
margar átt þú inni.
Ég vona að þú skínir skær,
á skjótri lífsleiðinni.

 

Þetta er nú mezt allt gamalt efni sem komið er hingað inn. Ég hef ekki getað ort mikið sökum anna. En á því skal gera bragabót fljótlega og mun ég reynna eftir beztu getu að setja hingað inn nýjan kveðskap.

Lifið heil.

Gamli


Bjarni Ásmundsson áttræður

Þessar vísur orti ég til afa konu minnar á áttræðis afmæli hans.

Um kappa mikinn skrifa skal,
skálda fagrar vísur.
Ungur bað um vinnu val,
við að draga ýsur.

Sjóinn ákaft sótti hann,
svona eins og gengur.
Ægis dætra unað fann,
ungur saklaus drengur.

Árin síðan sóttu á,
seggur vildi læra.
Heflar, tangir, hamrar þá,
hugan áttu skæra.

Húsgögn mörg þá halur skóp,
hugar smíði mikil.
Barna líka byggði hóp,
og bauð að hjarta lykil.

Kappinn síðan sumar eitt,
síma línu reisti.
Var þá oft í veðri heitt,
Vinnu þó samt leysti.

Tugi átta telur nú,
tekur hár að þynnast.
Sögur margar segir þú,
sem er ljúft að minnast.

 

Hafið góðan dag.

Gamli


Uppruni limrunnar II

Lear endurtók ekki alltaf endalok fyrstu línu í hinni fimmtu, enda limran ekki mikið fyrir að láta segja sér endalaust fyrir verkum. Hann endurtók oft lokaorð úr annari línu. Hér kemur blásaklaus limra af þeirri gerð:

There was an Old Man who said well!
Will nobody answer that bell?
I have pulled day and night,
Till my hair has turned white,
But nobody answers this bell.

E.G. Knox segir að Lear hafi líka séð fyrir þá rímsetningu sem nú sé almennt viðurkennd. Lear kvað:

There was an old man at the cape
Who made himself garments of crape;
When asked:,,Will it tear?"
He replied: ,,Here and there,
But they keep such a beautiful shape!"

Í líkingu við þetta kvað sá frægi maður Robert Louis Stevenson. Það er að vísu ný og gömul sagaað sama limra eða mjög svipaðar séu eignaðar fleiri en einum höfundi. Er jafnan svo um snjallan kveðskap sem lifir í munnmælum:

Mælti Hannes í Hlésvíkurporti:
,,Þegar hagmælska er orðin að sporti
margra ágætra manna,
þá er erfitt að sanna
hverja limruna hver maður orti."

A.C. Swinburne átti góðkunnningja, Dante gabriel Rosetti (1828-1882) sem og var liðtækur limrusmiður og hélt fast við þá reglu að enda fyrstu og fimmtu línu á sama orði:

There is a creature called God,
Whose creations are som of them odd.
I maintain, and I shall,
The creation of Val
Reflects little credit on God.

Það er (eða þannig):

Eru verur sem vér nefnum guði
sem virðast oft lenda í puði
við að skapa, ég skil,
og þegar skammkell varð til,
þá var skaparinn ekki í stuði.

Mér sýnist að um og eftir 1960 hafi enskumælandi menn tekið að prenta nær hvað sem var í limrulíki, og mun þó mörgum hafa mislíkað.
Hérlendis hefur þetta lengstaf verið hvíslað eða gengið í handritum.

Ég held limrurnar saklausa svekki,
sumar eru þó lausar við hrekki,
en býsna fásénar
eru barasta penar,
og betra að þær séu það ekki.

Og:

Ég held limrunnar brautir svo beinar,
að þar bíði ekki hindranir neinar,
en grátt er þar gaman
og gróft komið saman,
svo að guðhræddur almúginn kveinar.

Enda þótt enskumælandi menn hafi tekið að prenta þær limrur sem áður þóttu ekki til þess hæfar, eru fæstar slíkar feðraðar. Þar hefur löngum komið við sögu Anonymus, hörkugott skáld. Oft er það skammstafað Anon. Orðið er komið úr grísku og merkir ónefndur, kanski í seinni tíð best þekkt af samtökunum Alcoholic Anonymus (A.A.-samtökin) því miður hefur þetta villt suma góða menn sem hafa dýrðast yfir skáldinu Anon og ekki síst afköstum þess. En við þetta verður oft að sitja bæði í enskum limrum og íslenskum. Þá eru og mörg þau nöfn, sem standa undir enskum limrum, þess konar, að grunur vaknar um að ekki séu úr þjóðskránni.

Kvæðamannafélag ásatrúarmanna

Á degi sólar, í þorra árið 2007, (sunnudeginum 28. janúar 2007), var ákveðið að stofna hóp kvæðamanna innan Ásatrúarfélagsins. Haldnar voru tvær ágætar æfingar í boði félagsins, sem voru vel sóttar. Enda ekki minni menn en Steindór Andersen og Hilmar Örn Hilmarsson sem voru við stjórnvölin.

Á þessum æfingum var farið hratt yfir sögu listarinnar að kveða og sýnishorn af bragfræði viðruð.
Einnig var samkveðskapur æfður og var það hin mesta skemmtun.

Það barst í tal að halda æfingunum áfram og voru allir viðstaddir því sammála. Undirritaður var beðinn um að hafa umsjón með þeim og samþykkti hann það með glöðu geði.

Fyrirhugað er að hafa tvær æfingar í hverjum mánuði. Þær verða haldnar fyrsta og þriðja mánudag hvers mánaðar. Hver æfing verður um tvo tíma að lengd.

Allir áhugasamir eru velkomnir.

Beztu kveðjur

Gamli


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband